Aðferðafræði

Umræðufundurinn var hluti af stærra verkefni, Rökræðukönnun – almenningssamráð um endurskoðun stjórnarskrárinnar og fylgdi aðferðafræði sem James Fishkin prófessor við Stanford háskóla hefur þróað.

Gagnaöflun í verkefninu var víðtæk. Verkefnið hófst sumarið 2019 þegar viðhorfskönnun var lögð fyrir tilviljunarúrtak úr Þjóðskrá og netpanel Félagsvísindastofnunar. Þátttakendur sem svöruðu könnuninni var boðið að taka þátt í umræðufundi í Laugardalshöll í nóvember 2019 og þeir sem þáðu boðið fengu sendar til sín kynningarefni með upplýsingum um málefni fundarins.

Í upphafi umræðufundarins í Laugardalshöll var viðhorfskönnun lögð fyrir þátttakendur til að fá upplýsingar um skoðanir þeirra fyrir umræðurnar.  Því næst var þátttakendum skipt í hópa sem ræddu viðfangsefnin skipulega með hliðsjón af rökum með og á móti tillögum sem finna mátti í kynningarefninu og undir stjórn umræðustjóra. Í lok umræðna um hvert viðfangsefni gafst þátttakendum tækifæri á að beina spurningum um hvert málefni við sérfræðinga.

Í lok umræðufundar var viðhorfskönnun lögð fyrir þátttakendur á ný í því skyni að kanna hvort viðhorf þátttakenda höfðu breyst við nánari skoðun og umræður um viðfangsefnin. Þá var einnig spurt um viðhorf þátttakenda til ólíkra gilda og til stjórnmálaumhverfis og -þátttöku.

Umræður hópanna voru teknar upp auk þess sem ritarar skráðu helstu atriði umræðnanna á hverju borði.

Viðfangsefni fundarins voru eftirfarandi:

  1. Embætti forseta Íslands
  2. Landsdómur og ákæruvald Alþingis
  3. Ákvæði um breytingar á stjórnarskrá
  4. Þjóðaratkvæði og þjóðarfrumkvæði
  5. Kjördæmaskipta, atkvæðavægi og persónukjör
  6. Alþjóðlegt samstarf og framsal valdheimilda
Image