Rannsóknarverkefni í fötlunarfræðum

Evrópuverkefni - ANED - The Academic Network of European Disability experts - var stofnað af Evrópusambandinu í desember 2007. Verkefnið hófst árið 2008 og taka 30 Evrópuþjóðir þátt í því. Markmið ANED er safna upplýsingum sem lagðar eru til grundvallar stefnumótun sambandsins í málefnum fatlaðs fólks. Verkefninu er stýrt af Human European Consultancy í Hollandi og University of Leeds í Bretlandi og er Mark Priestley prófessor faglegur verkefnisstjóri.

ANED tengist rannsóknarsetrum í fötlunarfræði í hverju landi fyrir sig. Þar er farið yfrir ólík málefni og staða hvers lands sett fram í skýrslum sem aðgengilegar eru á netsvæði ANED. Rannsólknarsetur í fötlunarfræðum hefur tekið þátt í þessu verkefni og hafa Rannveig Traustadóttir og James G. Rice skilað skýrslum frá Íslandi um þau málefni sem unnið er að hverju sinni.

Á heimasíðu ANED er að finna mjög mikið af upplýsingum um málefni fatlaðs fólks sem eru flokkaðar eftir löndum eða málaflokkum.

Ofbeldi gegn fötluðum konum og aðgengi þeirra að stuðningsúrræðum.
Í lok janúar 2015 lauk stóru rannsóknaverkefni sem bar yfirskriftina Access to specialised victim support services for women with disabilities who have experienced violence (Ofbeldi gegn fötluðum konum og aðgengi þeirra að stuðningsúrræðum). Auk rannsóknaseturs í fötlunarfræðum tóku þátt rannsóknastofnanir og háskólar í Austurríki, Englandi og Þýskalandi. Rannsóknin var styrkt af Daphne III áætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Megináherslur verkefnisins voru að afla upplýsinga um ofbeldi gegn fötluðum konum og aðgengi þeirra að félagasamtökum og stofnunum sem styðja brotaþola. Jafnframt var markmið með rannsókninni að vinna úr niðurstöðum hagnýtt efni sem nýst gæti við skipulag aðgerða í þágu fatlaðra kvenna sem orðið hafa fyrir ofbeldi og bætt stuðning til þeirra. Því voru útbúin viðmið og grundvallaratriði er varða árangursríkan stuðning til fatlaðra kvenna sem orðið hafa fyrir ofbeldi og tillögur að aðgerðum til að bæta stuðning.

Bæklingurinn Ofbeldi gegn fötluðum konum á táknmáli

Hér er hægt að nálgast efni rannsóknarinnar

Börn, ungmenni og fötlun  - rannsókn á æsku og uppvexti fatlaðra barna og unglinga

 • Hér er um að ræða nýtt verkefni sem hófst í byrjun árs 2006. Rannsóknin er styrkt af Rannís, Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands og Rannsóknasjóði Háskólans á Akureyri. Áætlað er að þessi rannsókn verði sú viðamesta sem hið nýja rannsóknasetur sinnir á næstu árum. Margir MA nemendur og tveir doktorsnemar í fötlunarfræðum munu tengja lokaverkefni sín þessari rannsókn auk þess sem undir hatti hennar verður safnað upplýsingum sem nú þegar eru fyrir hendi, m.a. nokkrar rannsóknir nýútskrifaðra meistaranema.
 • Verkefnisstjóri er Rannveig Traustdóttir prófessor.

Fatlaðir háskólastúdentar

 • Er lítið rannsókna- og þróunarverkefni sem hefur verið sinnt af Rannveigu Traustadóttur og nemendum hennar undanfarin ár. Með tilkomu rannsóknaseturs í fötlunarfræðum og verkefnisstjóra sem getur unnið við styrkumsóknir í innlenda og erlenda rannsóknasjóði skapast mögulegt að fara af stað með stærra verkefni á þessu sviði. Þegar hefur verið lagður grunnur að norrænu samstarfi á þessu sviði (við fatlað fólk, fræðimenn og námsráðgjafa á öðrum norðurlöndunum) og verður íslenski hlutinn unnin í samstarfi við Námsráðgjöf Háskóla Íslands.

Fatlaðar konur

 • Fatlaðar konur, meðal annars konur í Kvennahreyfingu Öryrkjabandalags Íslands, hafa vakið athygli á því að þörf sé á að vinna rannsókn sem beindist að því að kortleggja líf og aðstæður fatlaðra kvenna á Íslandi. Hér er um áhugavert og mikilvægt verkefni að ræða, sem er á hugmyndastigi og fjárveitingar og starfskraftar munu skera úr um hvort unnt verður að sinna því á næstu árum.
 • Rannveig Traustadóttir og Hanna Björg Sigurjónsdóttir

Fatlaðir foreldrar, sjálfsmyndir, fjölskyldulíf og félagsleg staða

 • Rannsóknarverkefni 2005-2009. Markmið rannsóknarinnar er að rýna í stöðu fatlaðra foreldra í íslenskri menningu og samfélagsgerð út frá; (a) ríkjandi menningarlegum gildum og ráðandi orðræðu um fjölskyldur og fötlun, (b) aðgengi að foreldrahlutverkinu, og c) reynslu og upplifun fatlaðs fólks. Sérstök áhersla er lögð á að varpa ljósi á réttindi fatlaðra foreldra, út frá gildandi mannréttindasáttmálum, eins og þau birtast í opinberri löggjöf og samfélagslegu fyrirkomulagi, skilning á fötluðum foreldrum eins og hann birtist í orðræðu fjölmiðla og sjálfskilning og sjálfsmyndir fatlaðs fólks sem foreldra og tengingu þess við samfélagslegt fyrirkomulag og menningarlega orðræðu.
 • Styrkt af Rannsóknarsjóð HÍ og Nýsköpunarsjóð námsmanna.
 • Verkefnisstjóri: Hanna Björg Sigurjónsdóttir.

Fjölskyldur fatlaðra foreldra

 • Doktorsrannsókn um seinfæra foreldra, líf þeirra og aðstæður, rétt til foreldrahlutverks og fjölskyldulífs og þann stuðning sem þeim og fjölskyldum þeirra stendur til boða. Í undirbúningi er rannsókn um fjölskyldur fatlaðra foreldra í samstarfi við ungt fatlað fólk.
 • Hanna Björg Sigurjónsdóttir lektor í fötlunarfræðum

Foreldraþjálfun og foreldrafræðsla

 • Rannsóknarverkefni sem er í burðarliðunum og snýr að uppeldislegum samskiptum í fjölskyldum þar sem foreldrar eru seinfærir. Markmið verkefnisins er að hanna og þróa námskeið og fræðsluefni fyrir seinfæra foreldra sem tekur tillit til sérstakra námsþarfa þeirra. Verkefnið er liður í því að uppræta mismunum gagnvart fötluðum foreldrum samanber 23. grein Sáttmála sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem lýtur að virðingu fyrir heimilis- og fjölskyldulífi.
 • Verkefnið er samstarfsverkefni tveggja rannsóknarsetra (Rannsóknarseturs í fötlunarfræðum og Rannsóknarsetursins lífshættir barna og ungmenna) og byggir á niðurstöðum rannsókna (Hönnu Bjargar Sigurjónsdóttur og Rannveigar Traustadóttur) um seinfæra foreldra og  fjölskyldustuðning og niðurstöðum rannsókna Sigrúnar Aðalbjarnardóttur um leiðandi uppeldishætti. Félagsmálararáðuneytið og sjóður Odds Ólafssonar (ÖBI) styrkja verkefnið að hluta. Verið er að vinna að styrkumsóknum og er áætlað að verkefnið geti hafist um áramótin 2009-2019.
 • Verkefnisstjóri: Hanna Björg Sigurjónsdóttir.

Ungt fatlað fólk: Sjálfstætt líf, sjálfstæð búseta 

 • Hrefna K. Óskarsdóttir iðjuþjálfi hefur lokið MA námi í fötlunarfræði undir handleiðslu Rannveigar Traustadóttir. Lokaritgerð Hrefnu var unnin í samvinnu við Öryrkjabandalag Íslands og ber heitið Ungt fatlað fólk: Sjálfstætt líf, sjálfstæð búseta. Þessu verkefni, hefur verið haldið áfram og verið tengt verkefninu Börn, ungmenni og fötlun.