Íslenska kosningarannsóknin (ÍSKOS) er viðhorfskönnun meðal kjósenda og hefur verið framkvæmd eftir hverjar kosningar frá árinu 1983. Frá árinu 2016 hefur gögnum verið safnað á meðan á kosningabaráttunni stendur. Gögn úr þessum rannsóknum eru í opnum aðgangi á GAGNÍS (Gagnaþjónusta félagsvísinda á Íslandi). Sú nýbreytni á sér stað þetta árið að Félagsvísindastofnun birtir, í samráði við ÍSKOS, uppfærðar fylgistölur úr rannsókninni daglega fram að kosningum.

Á þessari síðu má sjá fylgi yfir allt landið en einnig birtir Félagsvísindastofnun niðurstöður úr fjórum öðrum spurningum úr ÍSKOS2021:

  1. Hversu miklum tíma, ef einhverjum, hefur þú varið síðasta sólarhringinn í að fylgjast með fréttum eða fréttatengdu efni um innlend stjórnmál?
  2. Hefur þú tekið þátt í umræðum um innlend stjórnmál á samfélagsmiðlum síðasta sólarhringinn (t.d. með því að skrifa athugasemdir við færslur eða deila stjórnmálatengdum fréttum)?
  3. Hvert finnst þér vera mikilvægasta pólitíska verkefnið sem Ísland stendur frammi fyrir í dag? Vinsamlegast nefndu einungis eitt verkefni, það sem þér finnst vera allra mikilvægast.
  4. Hver eftirtalinna vilt þú helst að verði forsætisráðherra eftir kosningar?

Framkvæmd

Tekið var 6072 manna lagskipt úrtak úr netpanel Félagsvísindastofnunar og er könnunin send á 184 manns dag hvern þar sem spurt er „Ef gengið yrði til kosninga í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?“. Ef þátttakandi veit ekki hvaða flokk hann ætlar að kjósa er hann spurður „En hvaða flokk eða lista finnst þér líklegast að þú myndir kjósa?“.

Framsetning

Gögnin á síðunni miðast við uppsöfnuð gögn 14 daga aftur í tímann en gefinn er kostur á að fækka eða fjölga dögum sem eru að baki niðurstöðunum. Gögnin er bæði hægt að sjá sem súlur og sem línurit til þess að skoða þróun yfir tíma. Hægt er að greina niðurstöður eftir kyni og aldri. Varast skal þó að lesa of mikið í niðurstöður sem byggja á fáum svörum. Gögnin eru vigtuð eftir kyni, aldri, kjördæmi og menntun.

Nánar um netpanel Félagsvísindastofnunar

Netpanell Félagsvísindastofnunar samanstendur af fólki 18 ára og eldra á landinu öllu sem hefur samþykkt að taka þátt í netkönnunum á vegum stofnunarinnar. Netpanellinn byggist á tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá. Söfnun í netpanel á sér stað jafnt og þétt og fylgst er vel með samsetningu hans. Meðal annars er þess gætt að dreifing kyns, aldurs, búsetu, menntunar og tekna sé sem líkust því sem hún er meðal allra landsmanna, 18 ára og eldri. Með því að tryggja gæði netpanelsins með framangreindum hætti er möguleiki á að alhæfa um niðurstöður rannsókna sem byggjast á svörum úr honum.

Ýttu hér til að opna mælaborðið í nýjum glugga.

Eftirtaldir aðilar komu að hönnun, framkvæmd og framsetningu þessarar könnunar:
Stefán Þór Gunnarsson, verkefnastjóri á Félagsvísindastofnun
Sindri Baldur Sævarsson, verkefnastjóri á Félagsvísindastofnun
Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar
Hafsteinn Birgir Einarsson, doktorsnemi við Manchester háskóla
Eva Heiða Önnudóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild HÍ
Ólafur Þórður Harðarson, prófessor við Stjórnmálafræðideild HÍ
Agnar Freyr Helgason, dósent við Stjórnmálafræðideild HÍ
Hulda Þórisdóttir, dósent við Stjórnmálafræðideild HÍ
Jón Gunnar Ólafsson, nýdoktor við Stjórnmálafræðideild HÍ

Rakning