Siðareglur

Formáli

Með skráningu siðareglna eru fangaðir í orð helstu þættir þeirrar siðferðilegu ábyrgðar sem er samofin störfum við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, í þeim tilgangi að hvetja og aðstoða starfsfólk hennar við að sinna störfum sínum á vandaðan og árangursríkan hátt.

Skráðar siðareglur eiga sér samsvörun í ýmsum lagareglum og eðli málsins samkvæmt er æskilegt að sem mest samræmi ríki þar á milli. Mikilvægasta hlutverk skráðra siðareglna er að veita almennari viðmiðanir um breytni og faglega ábyrgð en lagareglum er ætlað, enda gilda þær áfram þegar hinum lögfestu reglum sleppir.

Siðareglur

Ávallt skal vanda til verka við þróun rannsóknarsniða og mælitækja í rannsóknum. Vönduð vinnubrögð á að hafa að leiðarljósi við að safna gögnum, hreinsa gögn og við úrvinnslu gagna. Við hvert skref skal tryggja eins og hægt er að niðurstöður verði áreiðanlegar og réttmætar.

Frumábyrgð

  1. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar vinnur í anda þeirra almennu sanninda að þekking hafi gildi í sjálfu sér auk gildis hennar fyrir einstaklinga og samfélag. Því ber umfram allt að ástunda fræðileg vinnubrögð, leita sannleikans og setja hann fram samkvæmt bestu vitund.

Hæfni

  1. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar leitast við að varðveita og efla faglega hæfni sína. Störf þeirra skulu sýna að því er umhugað um góða starfshætti.

Heiðarleiki

  1. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar setur ekki fram hugverk annarra sem sín eigin. Þegar það nýtir sér hugverk annarra getur það ávallt heimilda í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð.

Rannsóknafrelsi

  1. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar forðast að hagsmunatengsl hefti rannsóknafrelsi og hamli viðurkenndum fræðilegum vinnubrögðum. Það upplýsir um þau hagsmunatengsl sem til staðar eru.

Áreiðanleiki

  1. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar mælir aðeins með og notar aðeins þau tæki og greiningaraðferðir sem að þeirra faglega mati henta best til að leysa vandamálið sem liggur fyrir.
  2. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar velur ekki mælitæki eða rannsóknaraferðir sem gætu gefið villandi niðurstöður.
  3. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar túlkar ekki niðurstöður rannsókna í ósamræmi við gögnin sem liggja fyrir né leyfir öðrum slíka túlkun.
  4. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar gefur ekki til kynna að túlka megi gögn með meira öryggi en gögnin í raun og veru bjóða uppá.

Hreinskilni

  1. Þegar niðurstöður rannsókna eru birtar á opinberum vettvangi þá leynir starfsfólk Félagsvísindastofnunar ekki niðurstöðum, aðferðum, hugmyndum eða tækni nema brýnar og almennt viðurkenndar ástæður krefji. Starfsfólkið er opið fyrir gagnrýni, samstarfi og nýjum hugmyndum

Starfsfólk Félagsvísindastofnunar lýsir aðferðum og niðurstöðum nákvæmlega og í smáatriðum eins og við hæfi er í öllum rannsóknarskýrslum. Miða skal við viðmið um lágmarksupplýsingar eins og gerð er grein fyrir í hluta IV.

Ef taka á út einhvern hluta vinnu Félagsvísindastofnunar formlega vegna gruns um að einhver hluti þessara reglna hafi ekki verið virtur verður að gefa viðbótarupplýsingar um rannsóknina í smáatriðum þannig að annar rannsóknaraðili gæti gert faglegt mat á henni.

Frumskylda

  1. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar sinnir störfum sínum af kostgæfni.

Málefnaleg gagnrýni

  1. Starfsfólki Félagsvísindastofnunar er frjálst að gagnrýna stefnu stofnunarinnar og starfshætti á málefnalegan hátt.

Hollusta

  1. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar leitast við að skaða ekki orðstír hennar. Það forðast að taka að sér verkefni sem ekki samræmast skyldum þeirra við hana.

Metnaður

  1. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar leggur sig fram um að stofnunin sinni hlutverki sínu og að siðreglur hennar séu haldnar. Meðferð fjármuna og annarra verðmæta

Starfsfólk

  1. Félagsvísindastofnunar gætir þess að fara vel með fjármuni og önnur verðmæti, sem þeim er trúað fyrir og það hefur til umráða vegna starfs sína og notar þau ekki í þágu einkahagsmuna sinna.

Fagleg ábyrgð gagnvart almenningi.

Frumábyrgð

  1. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar leggur sig fram um að efla rannsóknir í samfélaginu, sem og frjáls, málefnaleg og gagnrýnin skoðanaskipti.

Áreiðanleiki

  1. Við vinnslu skýrslu sem birta á almenningi skal tryggja að niðurstöður séu settar fram í jafnvægi og af nákvæmni.
  2. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar gætir þess að upplýsingar sem það veitir séu réttar og eins nákvæmar og kostur er.
  3. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar skal ávallt hafa í huga takmarkanir á starfsaðferðum, starfsgetu og þekkingu. Það fullyrðir ekki meira en vitneskja gefur tilefni til hverju sinni, heldur viðurkennir hvenær þekking þess er takmörkuð, aflar sér upplýsinga, eða vísar fyrirspurnum til viðeigandi aðila.

Vandvirkni og heilindi

  1. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar er gagnrýnið á sjálft sig og vandar dóma sína. Það falsar ekki eða afbakar upplýsingar, gögn eða niðurstöður rannsókna. Það gætir þess að birtar niðurstöður veiti ekki einhliða og villandi mynd af viðfangsefninu. Það forðast hvers kyns mistök og villur í rannsóknarstarfinu.
  2. Ef vart verður við alvarlega ónákvæmni eða rangfærslur í tengslum við rannsókn á vegum Félagsvísindastofnunar þá skal upplýsa opinberlega það sem til þarf til að leiðrétta ónákvæmni eða rangfærslur. Það getur falið í sér yfirlýsingu til fjölmiðla, löggjafaraðila, reglugerðarstofnunar eða annarra hópa við hæfi sem fengu ónákvæmar og/eða rangar upplýsingar úr rannsókn.
  3. Þegar starfsfólk Félagsvísindastofnunar vinnur að rannsókn sem ætluð er til birtingar fyrir almenning á að upplýsa viðskiptavin fyrirfram um að því ber skylda til að birta jafnframt lágmarksupplýsingar um rannsóknina. Þá ætti starfsfólk Félagsvísindastofnunar að reyna eins og hægt er að hvetja viðskiptavin til að fylgja stöðlum um lágmarksupplýsingar í því sem hann sendir frá sér niðurstöður (opinberlega) úr rannsókninni.

Samvitund

  1. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar hugar á ábyrgan hátt að afleiðingum kennslu sinnar og rannsókna fyrir samfélag, umhverfi og náttúru.

Fagmennska

  1. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar sem tekur þátt í opinberri umræðu eða sinnir félags- og stjórnmálum gerir það samkvæmt eigin sannfæringu. Jafnframt eru það minnugt um ábyrgð sína sem háskólaborgarar.

Fagleg ábyrgð gagnvart viðskiptavinum og/eða styrkveitendum.

Trúnaður

  1. Þegar unnið er fyrir viðskiptavin eru allar upplýsingar frá honum eða sem aflað er um hann í rannsókn, trúnaðarmál.
  2. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar gætir trúnaðar við skjólstæðinga sína. Það gætir þess að persónuupplýsingar séu einungis notaðar í málefnalegum tilgangi og að aðgengi að slíkum upplýsingum takmarkist af því. Það gætir fyllstu varúðar hvar og hvenær sem málefni skjólstæðinga eru til umræðu.

Jafnræði

  1. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar mismunar ekki viðskiptavinum, til dæmis vegna kyns, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða eða skoðana. Það veitir engum sérstaka fyrirgreiðslu á grundvelli persónulegra tengsla.

Fagleg ábyrgð gagnvart þátttakendum

Virðing

  1. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar forðast vinnubrögð eða aðferðir sem gætu skaðað, lítillækkað eða villt um fyrir þátttakendum rannsóknar.
  2. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar virðir áhyggjur þátttakenda af trúnaði við þá og gætir þess að hagsmunir þeirra njóti ýtrustu verndar.
  3. Alla jafna er þátttaka í rannsóknum sjálfviljug. Þátttakendur eiga ávallt að fá nægar upplýsingar um þá rannsókn sem þeir hafa lent í úrtaki fyrir þannig að þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort þeir vilji taka þátt eða ekki.
  4. Starfsfólk Félagsvísindastofunar villir ekki á sér eða verkefnum heimildir eða sinnir verkefnum (eins og sölu, fjársöfnun eða kosningabaráttu) undir því yfirskyni að um rannsókn sé að ræða.

Trúnaður

  1. Ávallt skal halda trúnað við svarendur og halda upplýsingum sem gætu gert þá auðkennanlega aðskildum frá svörum hans, nema svarandi gefu sjálfur leyfi fyrir öðru í ákveðnum tilgangi. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar gefur ekki upp eða notar nöfn svarenda í öðrum tilgangi en rannsóknarinnar sem þeir hafa samþykkt þátttöku í nema þeir gefi leyfi fyrir því.
  2. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar skilur að notkun á rannsóknarniðurstöðum í lagalegum tilgangi leysir það ekki undan siðferðislegri skyldu um að halda öllum upplýsingum sem hægt er að tengja við svarendur leyndum eða dregur það úr mikilvægi nafnleyndar svarenda.

Góð fagleg vinnubrögð fela í sér skyldur rannsakenda til að birta eða hafa tiltækar nauðsynlegar upplýsingar um rannsóknina við skýrsluskil eða birtingu niðurstaðna. Eftirfarandi upplýsingar ættu að lágmarki alltaf að fylgja skýrsluskilum og/eða kynningu á niðurstöðum rannsóknar:

  1. Fyrir hvern rannsóknin er unnin og hver sá um framkvæmd.
  2. Nákvæmt orðalag spurninga, auk leiðbeiningartexta og útskýringa við spurningar sem gætu hugsanlega haft áhrif á svör þátttakenda.
  3. Skilgreining á þýði og lýsing á úrtaki.
  4. Lýsing á úrtaksaðferð þar sem kemur skýrt fram hvaða aðferð var notuð við val á þátttakendum eða hvort svarendur voru sjálfvaldir.
  5. Úrtaksstærð og þegar hægt er viðmið fyrir val á þátttakendum (t.d. aldur, kyn), aðferðir við val á þátttakendum (t.d. þjóðskrá, netpanell) og svarhlutfall.
  6. Umræða um nákvæmni niðurstaðna, meðal annars áætlun um úrtaksvillu og lýsingu á hvers kyns vigtunar- eða matsaðgerðum sem notaðar voru.
  7. Gera grein fyrir hvaða niðurstöður byggjast á hluta úrtaksins og hve stór sá hluti er.
  8. Aðferð, staðsetning og dagsetning gagnaöflunar.