Lög og reglur

Reglur um Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands

Reglur nr. 370 dagsett: 6. apríl 2009

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands er vísindaleg rannsókna- og fræðastofnun sem starfrækt er af Háskóla Íslands.

Stofnunin heyrir undir félags- og mannvísindadeild, félagsráðgjafardeild og stjórnmálafræðideild. Hún er vettvangur rannsókna- og þróunarstarfs á fræðasviðum deildanna þriggja.

Hlutverk Félagsvísindastofnunar er:

 1. að efla rannsóknir í félagsvísindum í þeim deildum sem að stofnuninni standa,
 2. að sinna þjónustuverkefnum á sviði félagsvísinda,
 3. að eiga samstarf við aðila utan stofnunarinnar sem stunda rannsóknir á rannsóknasviðum hennar, d) að veita nemendum þjálfun og reynslu í vísindalegum vinnubrögðum með því að gefa þeim kost á að stunda rannsóknir,
 4. að styðja við kennslu á sviði aðferðafræða félagsvísinda,
 5. að gefa út og kynna niðurstöður rannsókna í félagsvísindum,
 6. að veita upplýsingar og ráðgjöf varðandi félagsvísindaleg málefni,
 7. að gangast fyrir námskeiðum og fyrirlestrum um félagsvísindi. 

Háskóli Íslands lætur stofnuninni í té starfsaðstöðu, svo sem húsnæði og búnað eftir því sem kostur er.

Stofnunin veitir þeim kennurum sem sinna rannsóknum innan hennar og öðru rannsóknarfólki aðstöðu og nauðsynlegan búnað til rannsókna gegn greiðslu, eftir því sem við á. Slík þjónusta er háð samþykki forstöðumanns og framkvæmdarstjórnar hverju sinni.

Innan Félagsvísindastofnunar eru starfræktar rannsóknastofnanir, rannsóknasetur, rannsóknarstofur og rannsóknaverkefni á vegum fastráðinna kennara við þær deildir sem að stofnuninni standa. Slíkir aðilar greiða fyrir þjónustu Félagsvísindastofnunar í samræmi við notkun. Deildir bera fjárhagslega ábyrgð á starfsemi þessara aðila gagnvart Félagsvísindastofnun og geta sett sér reglur um hvaða skilyrðum slík ábyrgð lýtur af hálfu deildar.

Stjórn Félagsvísindastofnunar er skipuð til þriggja ára. Í henni sitja deildarforsetar þeirra þriggja deilda sem að stofnuninni standa. Auk þess sitja í stjórninni þrír fulltrúar til viðbótar sem kjörnir eru af deildunum, tveir úr félags- og mannvísindadeild og einn úr stjórnmálafræðideild. Ef enginn kennari úr námsbraut deildar er fulltrúi í stjórn stofnunarinnar á námsbrautin rétt á að hafa áheyrnarfulltrúa á stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétt. Verði miklar breytingar á stærð deilda og/eða því hversu mikla þjónustu deildirnar sækja til stofnunarinnar kemur þetta fyrirkomulag til endurskoðunar. Forstöðumaður Félagsvísindastofnunar skal sitja fundi stjórnar, með tillögurétt, án atkvæðisréttar sem og einn fulltrúi starfsmanna. Stjórn kýs formann stjórnar úr sínum röðum. Stjórnarfundi skal halda minnst tvisvar sinnum á ári hverju.

Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi bréflega, eða í tölvupósti, með þriggja daga fyrirvara. Fundarboð skal greina frá dagskrá fundar.

Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess eða einn deildarforsetanna þriggja. Sama gildir er forseti Félagsvísindasviðs eða rektor ber fram slíka ósk, og hafa þeir þá málfrelsi og tillögurétt á fundinum, en ekki atkvæðisrétt.

Komi til atkvæðagreiðslu í stjórn skulu 3/4 hlutar atkvæða ráða niðurstöðu. Halda skal gerðabók stjórnar og skulu staðfestar fundargerðir færðar í hana. Afrit fundargerða skulu send deildarmönnum í deildunum þremur.

Stjórn stofnunarinnar tekur stefnumarkandi ákvarðanir fyrir stofnunina og setur henni starfsreglur eftir því sem þörf segir til um. Stjórnin sker úr í vafaatriðum sem upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofnunarinnar. Stjórnin ber ábyrgð á fjármálum stofnunarinnar gagnvart forseta fræðasviðs, samþykkir rekstrar- og fjárhagsáætlun og gerir, í samráði við aðildardeildir, tillögur til forseta fræðasviðs um fjárveitingar og skiptingu þeirra ásamt skiptingu annarra tekna. Stjórnin efnir til ársfundar með starfsmönnum rannsóknarstofnana deilda og Félagsvísindastofnunar ásamt stjórn hennar þar sem ársskýrsla er lögð fram og önnur mál svo sem kveðið er á um í reglum fyrir Háskóla Íslands.

Í framkvæmdastjórn Félagsvísindastofnunar sitja deildarforsetar deildanna þriggja sem að henni standa. Forstöðumaður starfar með framkvæmdastjórn. Hver deildarforsetanna þriggja getur krafist stjórnarfundar um málefni sem til afgreiðslu eru í framkvæmdastjórninni og ræður þá niðurstaða stjórnar.

Framkvæmdastjórn gerir tillögu til forseta fræðasviðs um ráðningu forstöðumanns. Forstöðumaður skal að jafnaði hafa meistarapróf hið minnsta eða sambærilegt háskólapróf. Forseti fræðasviðs setur forstöðumanni erindisbréf þar sem nánar er kveðið á um verkefni hans. Um ráðningu forstöðumanns og annars starfsfólks fer að öðru leyti eftir ákvæðum reglna fyrir Háskóla Íslands. Ef um er að ræða ráðningu í starf og ekki er gert ráð fyrir því starfsheiti í reglunum fer framkvæmdastjórn stofnunarinnar eða forstöðumaður í umboði hennar með ráðningarmálið.

Framkvæmdastjórn undirbýr ásamt forstöðumanni rekstrar- og fjárhagsáætlun og samþykkir þjónustuverkefni sem stofnunin tekur að sér í samræmi við reglur þar um. Heimilt skal að framselja ákvörðunarvald um smærri verkefni til forstöðumanns.

Tekjur Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands eru eftirfarandi:

 1. styrkir til einstakra verkefna,
 2. greiðslur fyrir þjónustustarfsemi,
 3. tekjur af fundum, námskeiðum og útgáfustarfsemi,
 4. aðrar tekjur, t.d. gjafir og framlög úr ríkissjóði eftir því sem kveðið kann að vera á um í fjárlögum,
 5. framlag frá félags- og mannvísindadeild, félagsráðgjafardeild og stjórnmálafræðideild ef þörf krefur.

Reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi háskólans. Stofnunin hefur sjálfstætt fjárhald og ábyrgjast aðildardeildir fjárhag hennar gagnvart forseta fræðasviðs og rektor í sömu hlutföllum og þær eiga stjórnarmenn í stjórn stofnunarinnar. Fjárhagsáætlanir og uppgjör skulu borin undir forseta fræðasviðs. Ef um er að ræða útselda þjónustu sem veitt er í samkeppni við einkaaðila, skal sú starfsemi fjárhagslega afmörkuð frá öðrum rekstri stofnunarinnar og þess gætt að sá rekstur sé ekki niðurgreiddur með öðrum tekjum í samræmi við ákvæði samkeppnislaga. Um stjórnunar- og aðstöðugjald af sértekjum fer eftir ákvæðum reglna fyrir Háskóla Íslands.

Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett á grundvelli heimildar í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 842/2002 um Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.