Tillögur að rannsóknarsniði og kostnaðaráætlun

 

Sérfræðingur Félagsvísindastofnunar veitir ráðleggingar um rannsóknarsnið og aðferðafræðilega nálgun og gefur verðtilboð með hliðsjón af umfangi rannsóknar.

 

Rannsóknarsnið og aðferð: Við upphaf rannsóknar er mikilvægt að velja það rannsóknarsnið og aðferð sem best hæfir markmiði rannsóknar hverju sinni. Ef markmiðið er t.d. að kanna viðhorf fólks til ákveðins viðfangsefnis er megindleg aðferð s.s. viðhorfskönnun góð leið til þess að nálgast viðfangsefnið, en ef markmiðið felst í að skoða ástæður viðhorfa til viðfangsefnis er eigindleg aðferð s.s. viðtals- eða rýnihóparannsókn góð leið.

Megindlegar rannsóknir: megindlegar rannsóknir byggja á tölulegum gögnum. Tekið er úrtak ákveðins hóps og lagður fyrir hann spurningalisti um viðfangsefnið. Félagsvísindastofnun leggur áherslu á að spurningalistagerð standist aðferðafræðilegar kröfur. Tölfræðiaðferðum er síðan beitt í söfnun, greiningu, túlkun, úrvinnslu gagna og framsetningu niðurstaðna. Niðurstöður megindlegra rannsókna eru gjarnan nýttar til að spá fyrir um viðhorf stærri hóps eða þýðisins.

Eigindlegar rannsóknir: eigindlegar rannsóknir byggja á viðtölum við einstaklinga og hópa. Umræðurammi er hafður til hliðsjónar í viðtölunum sem er ætlað að svara þeirri rannsóknarspurningu(m) sem lagt er upp með. Viðmælendur í eigindlegum rannsóknum eru gjarnan fulltrúar stærri hópa s.s. almennings, sérfræðinga, hagaðila, stjórnenda o.fl. Markmið eigindlegra viðtala er að öðlast djúpa innsýn í ákveðið viðfangsefni. Viðtölin eru afrituð og greind, og niðurstöður settar fram í heildstæðum texta sem er grundaður á gögnunum sjálfum með tilvitnunum í viðmælendur.

Blandaðar rannsóknir: blandaðar rannsóknir, megindlegar og eigindlegar, eru nýttar samhliða með það að markmiði að fá bæði yfirsýn og dýpt í það viðfangsefni sem rannsakað er.

 

Ef þú óskar eftir verðtilboði geturðu haft samband í síma: 525 4545 eða í gegnum tölvupóst í netfangið: felagsvisindastofnun@hi.is.