Vefkannanir
Hægt er að ná til fólks á einfaldan og þægilegan máta með því að leggja fyrir kannanir á netinu.
Netkannanir eru yfirleitt lagðar fyrir sértæka hópa þar sem listi yfir netföng liggur fyrir. Sem dæmi má nefna launakannanir meðal félagsmanna stéttarfélaga eða kannanir á starfsumhverfi vinnustaða. Einnig er algengt að hringt sé í skilgreint úrtak og fólk beðið um netfang sem könnunin er send á. Þannig er hægt að tryggja að könnunin fari á virkt netfang.
Félagsvísindastofnun tekur að sér alla þætti framkvæmdar könnunar á Internetinu og sér um að velja úrtak þegar það á við, útbúa spurningalista, setja hann upp, safna gögnum og vinna úr þeim. Netforritið sem er notað er einfalt í notkun og leiðir þátttakandann skref fyrir skref í gegnum spurningarnar. Einnig býður forritið upp á villuprófun en þannig er hægt að hámarka öryggi í innslætti svarandans.
Helstu kostir þessarar aðferðar er að gagnasöfnun getur tekið mun skemmri tíma en til dæmis í símakönnun, auðvelt er að ítreka svörun og leiðbeiningar geta verið mjög nákvæmar og jafnvel myndrænar ef þörf er á.
Svarhlutfall í netkönnunum er á mjög breiðu bili og fer það mjög eftir því um hvers konar svarendahóp er að ræða og framkvæmdaleið. Til að mynda er svörun oft með lakara móti ef spurningalisti liggur á heimasíðu sem svarendur þurfa þá að fara inn á og finna rétta slóð. Aftur á móti getur svörun farið upp í allt að 90% þegar hópurinn sem um ræðir er sértækur, fær góða kynningu á könnuninni til dæmis innan fyrirtækis þegar um könnun á starfsumhverfi er að ræða, og fær hana senda í tölvupósti.
Nánari upplýsingar um vefkannanir má fá hjá verkefnisstjórum Félagsvísindastofnunar í síma 525 4545 eða með tölvupósti á netfangið felagsvisindastofnun@hi.is.