Netpanell

Á undanförnum árum hefur starfsfólk Félagsvísindastofnunar unnið að því að byggja upp netpanel. Netpanellinn samanstendur af fólki 18 ára og eldra á landinu öllu sem hringt var í eftir úrtaki úr þjóðskrá og samþykkti að taka þátt í netkönnunum á vegum stofnunarinnar.

Gæði netpanels skipta höfuðmáli

Það skiptir miklu máli að framkvæmd netkannana uppfylli strangar aðferðafræðilegar reglur um val á þátttakendum þannig að ekki sé um sjálfvalið úrtak að ræða. Lögð er rík áhersla á að tryggja gæði netpanelsins og alhæfingargildi niðurstaðna sem byggjast á úrtaki úr honum.

Í fyrsta lagi samanstendur netpanell Félagsvísindastofnunar af þátttakendum sem valdir eru með tilviljun úr þjóðskrá og samþykkja að taka þátt í reglubundnum netkönnunum stofnunarinnar. Söfnun í netpanel Félagsvísindastofnunar á sér stað með þessum hætti jafnt og þétt yfir árið. Reynslan sýnir að á bilinu 60-65% þeirra sem svara í símakönnunum samþykkja að taka þátt, eða rúm 40% af upprunalegu úrtaki.

Í öðru lagi er netpanellinn reglulega uppfærður þannig að hann endurspegli vel lýðfræðilega samsetningu þjóðarinnar með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Komi fram við gæðagreiningu á panelnum að samsetning hans sé ekki í samræmi við samsetningu þjóðarinnar er farið í sérstakt átak til að safna í þá hópa sem eru til dæmis hlutfallslega of fámennir.

Þá eru reglulega gerðar aðferðafræðilegar samanburðarrannsóknir á net- og símakönnunum. Þá er meðal annars skoðað hvort munur sé á svörum panelmeðlima samanborið við þá sem svara í síma.

Með því að tryggja gæði netpanelsins með framangreindum hætti er möguleiki á að alhæfa um niðurstöður rannsókna sem byggjast á svörum úr netpanel Félagsvísindastofnunar.

Starfsfólk Félagsvísindastofnunar leggur jafnframt áherslu á að aðferðafræðileg skilyrði um lengd spurningalista, gæði spurninga og efnislegt innihald í könnunum netpanels séu ávallt höfð að leiðarljósi.

Nánari upplýsingar um netpanelinn má fá hjá verkefnisstjórum Félagsvísindastofnunar í síma 525 4545 eða með tölvupósti á netfangið felagsvisindastofnun@hi.is.