Image

Ársfundur Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fer fram föstudaginn 29. apríl 2022 kl. 8:30-10.00 í fyrirlestrasal VHV 023 í Veröld – húsi Vigdísar.

Umræðuefni fundarins er þróun rannsókna í takt við samfélagslegar áskoranir samtímans og uppbygging rannsóknarinnviða sem mynda grundvöll framþróunar í vísindum. Félagsvísindastofnun hefur staðið fyrir uppbyggingu gagnaþjónustunnar GAGNÍS sem er mikilvægt skref í uppbyggingu rannsóknarinnviða en meginmarkmið GAGNÍS er að miðla rannsóknargögnum í opnum aðgangi.

Helstu áskoranir samtímans felast m.a. í lýðheilsu, jafnrétti og loftslagsbreytingum. Covid-19 heimsfaraldurinn hefur undangengin ár sett mark sitt á íslenskt samfélag og haft áhrif á efnahag, líðan og heilsu fólks. Félagsvísindastofnun stóð fyrir langtímarannsókn á áhrifum Covid-19 og fjallað var reglulega um niðurstöður í fjölmiðlum. Gögn rannsóknarinnar eru í opnum aðgangi.

Loftslagsbreytingar hafa margvísleg áhrif á samfélög fólks og aðgerðir í loftslagsmálum eru brýnar. Félagsvísindastofnun vann samráðsrannsókn við almenning um leiðir til kolefnishlutleysis á Íslandi 2040 í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Rannsóknin fólst í könnunum og samráðsfundi með fulltrúum almennings um mögulegar aðgerðir, m.a. í atvinnulífi, landnotkun, ferðalögum og matvælaframleiðslu. Heildarniðurstöður voru nýttar við stefnumótun stjórnvalda í verkefnum sem falla undir að ná kolefnishlutleysi á Íslandi árið 2040.

Félagsvísindastofnun vann kortlagningu á aðferðum fyrir mælingar á matarsóun í samstarfi við danska ráðgjafafyrirtækið Rambøll. Mælingar á matarsóun eru nauðsynleg forsenda þess að koma jafnvægi á matvælakerfið og þar með auka jöfnuð í aðgengi fólks að hollri fæðu, sanngjörnu verði matvöru og draga úr loftslagsbreytingum. Matvæli sem fara forgörðum eru umtalsvert tap á fjármagni í allri virðiskeðjunni, frá framleiðslu til almennrar neyslu. Niðurstöður og tillögur kortlagningarinnar verða nýttar í mælingar á matarsóun á Íslandi fyrir Umhverfisstofnun.

Húsið verður opnað kl. 8.30 með morgunhressingu en formleg dagskrá hefst kl. 9.00

Dagskrá:
09.00 Formaður framkvæmdastjórnar Félagsvísindastofnunar setur fundinn – Maximilian Conrad
09.05 Ávarp sviðsforseta Félagsvísindasviðs – Stefán Hrafn Jónsson
09.10 Ársskýrsla Félagsvísindastofnunar og helstu verkefni – Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður
09.25 Viðhorf Íslendinga til loftslagsbreytinga: Samanburður yfir tíma og við önnur Evrópulönd – Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði
09.40 Covid-19 rannsókn og nýting gagna – Ævar Þórólfsson, verkefnisstjóri
09.50 GAGNÍS, staða og handbók – Örnólfur Thorlacius, verkefnisstjóri
10.00 Fundi slitið

Ársfundurinn er opinn öllum