Símakannanir

Símakönnun er algengasta aðferðin til að nálgast upplýsingar frá viðmælendum.

Hringt er í þátttakendur í úrtaki, en stærð þess fer eftir inntaki og gerð könnunar. Spyrlar styðjast við tölvuforrit við vinnu sína, sem tryggir samræmi og gæði. Spyrlarnir lesa spurningarnar og svarmöguleikana orðrétt af tölvuskjánum og skrá svör jafnóðum inn í forritið. Forritið sér til þess að spurningum sé sleppt þegar það á við og er með sjálfvirka villuprófun.

Spyrlar á vegum Félagsvísindastofnunar fá sérstaka þjálfun og nákvæma kynningu á því verkefni sem þeir fást við hverju sinni. Spyrlarnir fylgja ströngum verklagsreglum sem tryggja hlutleysi, samræmi og gæði. Auk þess hefur verkefnisstjóri umsjón með hverju verkefni og fylgir því eftir. Verkefnisstjóri vinnur náið með spyrlum og fer yfir hluta svara jafnóðum og könnunin er gerð.

Yfirleitt er miðað við að ná um 65-70% svarhlutfalli. Símakönnun tekur mislangan tíma allt eftir því hvernig úrtak er skilgreint og lengd spurningalista. Venjulega má þó gera ráð fyrir 2-3 vikum í gagnaöflun fyrir almennt 1500 manna úrtak úr þjóðskrá og meðallengt spurningalista (25-30 spurningar).

Nánari upplýsingar um þessa aðferð má fá hjá verkefnisstjórum Félagsvísindastofnunar í síma 525 4545 eða með tölvupósti á netfangið felagsvisindastofnun@hi.is.