Samstarfsaðilar

Innlendir samstarfsaðilar

Velferðarráðuneytið. Rannsóknasetrið var í samstarf við þáverandi félagsmálaráðuneyti sem fólst í því að ráðuneytið kostaði starf lektors í fötlunarfræðum í fimm ár frá miðju ári 2004 að telja. Skrifað var undir samstarfssamning milli ráðuneytisins og Háskóla Íslands í desember 2003.

Hagsmunasamtök fatlaðs fólks og aðstandenda þeirra. Á undanförnum árum hafa starfsmenn setursins haft samstarf um ýmis verkefni við hagsmunasamtök fatlaðs fólks og aðstandenda þeirra, einkum Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands. Þess er vænst að áframhaldandi samstarf verið milli þessara samtaka og rannsóknaseturs í fötlunarfræðum.

Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Samstarf við Guðrúnu V. Stefánsdóttur lektor um Evrópuverkefnið Empowerment and disability: Informal learning through self-advocacy and life history. Þá hefur á undanförnum árum verið samstarf við ýmsa aðra aðila innan Menntavísindasviðs um fræðastarf og rannsóknir.

Minningarsjóður Margrétar Björgólfsdóttur. Samningur milli Minningarsjóðsins og Háskóla Íslands um starf verkefnisstjóra til þriggja ára við rannsóknasetur í fötlunarfræðum.

Ráðgjafahópur um fötlunarfræðinám. Í tengslum við nám í fötlunarfræði starfar ráðgjafahópur sem í eiga sæti aðilar utan HÍ og eru frá helstu hagsmunahópum sem námið snýr að svo sem fötluðu fólki, aðstandendum, fagfólki, stjórnmálamönnum og embættismönnum.

 

Alþjóðlegir samstarfsaðilar

Norrænt samstarf

Nordic Network for Disability Research, NNDR. Kennarar og nemendur í fötlunarfræðum hafa tekið þátt í samstarfi við fræðimenn á sviði fötlunarfræða í gegnum þessi norrænu samtök. Núverandi forseti samtakanna er Borgunn Ytterhus en ritari er Snæfríður Þóra Egilson. Samstarfið felst í stjórnarfundum 1 – 2 á ári, ráðstefnum um rannsóknir í fötlunarfræðum sem haldnar eru til skiptis á Norðurlöndunum, ritstýringu fræðirita, útgáfu á tímaritinu Scandinavian Journal for Disability Research og fleira.

Nordens Välfärdscenter, NVC. NVC er ein af stofnunum Norrænu ráðherranefndarinnar. Samstarfið við þessa stofnun er af tvennum toga.

A. Verkefnið Nordisk nättverkssamarbete om handikappforskning (Nordic Network Cooperation on Disability Research). Verkefnið hófst 2005 og er áætlað að það standi til 2007. Verkefnið er fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni. Verkefnisstjórar eru Inge Ovesen framkvæmdastjóri NVC og Rannveig Traustadóttir. Þetta norræna verkefni hefur um 10 manna verkefnisstjórn sem samanstendur af fulltrúum fræðimanna, embættismanna og samtaka fatlaðs fólks.

B. Samstarfssamningur milli NNDR og NVC um ýmsa þætti sem snúa að því að efla og þróa rannsóknir og fræðastarf á sviði fötlunarfræða og málefnum fatlaðra á Norðurlöndum. Rannveig Traustadóttir er fulltrúi NNDR í þessu starfi.

Öndvegissetur í velferðarrannsóknum
Rannsóknasetur í fötlunarfræðum er hluti af Norrænu öndvegissetri í velferðarrannsóknum sem stýrt er af Björn Hvinden prófessor og rannsóknastjóra hjá norsku félagsvísindastofnuninni NOVA, sem staðsett er í Osló. Þetta viðamikla verkefni er fjármagnað af NordForsk. Öndvegissetrinu var ýtt úr vör með ráðstefnu í Osló 24. og 25. október 2007. Fyrirlestrar frá ráðstefnunni.

 

Evrópuverkefni

Grundtvig verkefni um fullorðinsfræðslu. Verkefnið ber heitið Empowerment and disability: Informal learning through self advocacy and life history. Samstarfsaðilar eru fjórir háskólar í Evrópu: The Open University í Bretlandi, The University of Dublin, Trinity College á Írlandi, The University of Gent og í Belgíu og Háskóli Íslands. Auk háskólafólks tekur hópur fólks með þroskahömlun í hverju landi þátt í verkefninu. Af Íslands hálfu taka þátt tveir fræðimenn frá Háskóla Íslands (Hanna Björg Sigurjónsdóttir  og Rannveig Traustadóttir) og einn frá Kennaraháskóla Íslands (Guðrún V. Stefánsdóttir) auk þriggja einstaklinga með þroskahömlun. Þetta er tveggja ára verkefni sem hófst haustið 2005.

Syracuse University, USA

Center on Disability Studies, Law and Human Policy, Syracuse University. Við stofnunina starfar hópur fræðimanna á sviði fötlunarfræða. Þessi stofnun er meðal virtustu rannsóknastofnana í fötlunarfræðum í Bandaríkjunum.

University of Sydney, Ástralía

Australian Family & Disability Studies Research Collaboration, The University of Sydney. Samstarf við þessa rannsóknarstofnun hefur staðið yfir nokkurra ára tímabil. Tengiliður er dr. Gwynnyth Llewellyn, prófessor og deildarforseti heilbrigðisvísindadeildar, en hún er jafnframt forstöðumaður rannsóknastofnunarinnar og leiðir þar rannsóknarhóp sem vinnur að fjölbreyttum verkefnum á sviði fötlunarfræða.

Núverandi samstarf við Ástralska fræðahópinn snýr einkum að tveimur verkefnum. Öðru verkefninu er þegar lokið en það var samstarf við að ritstýra alþjóðlegu riti um seinfæra foreldra. Parents with intellectual disabilities: Past, present and futures. Ritstjórar bókarinnar voru dr. Gwynnyth Llewellyn, dr. Rannveig Traustadóttir, dr. David McConnell og dr. Hanna Björg Sigurjónsdóttir. Bókin kemur út hjá Blackwell publishing vor 2010. Hitt verkefnið er á undirbúningsstigi en það er lífssögurannsókn með seinfærum foreldrum (reflective narrative study with parents with intellectual disabilities).