Rannsóknasetur um fólksflutninga og fjölmenningu
Rannsóknarsetrið leggur áherslu á þverfaglega nálgun og samstarf við önnur rannsóknarsetur og stofnanir sem vinna að svipuðum málefnum.
Það leitast sértaklega við að gera rannsóknir kennara og nemanda við Háskóla Íslands á þessum sviðum sýnilegar og stuðla að samstarfi við aðrar stofnanir utan hans.
Á síðastliðnum ártugum hafa málefni sem tengjast auknum fólksflutningum af margvíslegu tagi og aukinni félagslegri margbreytni verið ofarlega á baugi í alþjóðlegu fræðastarfi. Eins og annars staðar í heiminum hefur íslenskt samfélag gengið í gegnum breytingar af þessum toga sem hafa markað djúp spor í samfélagsumræðu íslensks samtíma og hafa þessar breytingar á síðastliðnum árum verið skoðaðar í auknum mæli af íslensku fræðifólki. Markmið Rannsóknarsetursins er að stuðla að, hvetja og kynna rannsóknir á málefnum tengdum fjölmenningu, innflytjendum og farandverkafólki, og jafnframt tengdum málefnum svo sem þjóðerni, kynþáttahyggju, samlögun og samþættingu. Þessi málefni eru skoðuð í alþjóðlegu og staðbundnu samhengi. Rannsóknarsetrið leggur áherslu á þverfaglega nálgun og samstarf við önnur rannsóknarsetur og stofnanir sem vinna að svipuðum málefnum. Það leitast sértaklega við að gera rannsóknir kennara og nemanda við Háskóla Íslands á þessum sviðum sýnilegar og stuðla að samstarfi við aðrar stofnanir utan hans.
Nánar um markmið:
- Eiga frumkvæði að og sinna rannsóknum
- Sinna rannsóknartengdum þjónustuverkefnum
- Efla tengsl rannsókna og kennslu á sviði fjölmenningar, fólksflutninga og innflytjendamála.
- Hafa samstarf innan Háskóla Íslands og við aðrar innlendar og erlendar rannsóknastofnanir og fræðimenn á rannsóknasviði setursins
- Veita nemendum þjálfun og reynslu í vísindalegum vinnubrögðum með því að gefa þeim kost á að vinna rannsóknarstörf á vegum setursins eftir því sem unnt er
- Kynna niðurstöður rannsókna m.a. með útgáfu fræðibóka og -greina, gangast fyrir fræðilegum námskeiðum, fyrirlestrum, málþingum og ráðstefnum
- Vera ráðgefandi og taka þátt í almennri umræðu um þessi og tengd málefni í samfélaginu
- Að rannsóknarsetrinu standa fræðimenn úr Háskóla Íslands sem hafa stundað fjölþættar rannsóknir á sviði fjölmenningar og fólksflutninga
Unnur Dís Skaptadóttir, unnurd@hi.is
- Prófessor í mannfræði, hefur unnið að rannsóknum um reynslu og viðhorf ólíkra hópa fólks sem flust hafa til Íslands vegna starfa á síðustu áratugum og skoðað mótun fjölmenningarlegs samfélags
Kristín Loftsdóttir, kristinl@hi.is
- prófessor í mannfræði, hefur rannsakað WoDaaBe farandverkamenn í Níger, fjölmenningu í íslenskum námsbókum og kynþáttahyggju í íslensku samhengi