Rannsókn á töku og nýtingu á fæðingarorlofi
Við óskum eftir þátttöku foreldra í rannsókn á töku og nýtingu á fæðingarorlofi og umönnun barna fyrstu æviárin. Boð um þátttöku er sent á lögheimili allra barna fædd 2019 og 2021 og það er von okkar að sem flest sjái sér fært að taka þátt. Að jafnaði tekur um 30 mínútur að ljúka spurningalistanum.
Rannsóknin er langtímarannsókn fræðafólks við Háskóla Íslands og er að þessu sinni unnin með stuðningi félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Þetta er í fimmta sinn sem rannsóknin er gerð og með endurteknum könnunum hefur tekist að skapa einstakt gagnasafn sem sýnir hvernig foreldrar hafa hagað fæðingarorlofi, atvinnuþátttöku og umönnun barna síðastliðinn aldarfjórðung. Niðurstöður úr fyrri könnunum hafa vakið alþjóðlega athygli og á heimasíðu verkefnisins parentalleave.hi.is er að finna upplýsingar um niðurstöður langtímarannsóknarinnar.
Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sér um að afla gagna fyrir rannsóknina. Farið verður með öll gögn samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga (lög nr. 90/2018). Nöfn munu hvergi koma fram við úrvinnslu gagna og Félagsvísindastofnun gætir þess að útilokað verði að rekja svör til einstaklinga. Engin skylda er að taka þátt en góð þátttaka er afar mikilvæg til þess að niðurstöður verði sem áreiðanlegastar.
Ef nánari upplýsinga er óskað, vinsamlega hafið samband við Ásdísi A. Arnalds, forstöðumann Félagsvísindastofnunar í síma 525-5493 eða á netfangið aaa1@hi.is.
Happdrætti: Þátttakendur sem ljúka við að svara könnuninni eiga möguleika á að vinna gjafakort í Smáralind. Tveir svarendur munu fá gjafakort að upphæð kr. 50.000 og tíu munu fá gjafakort að upphæð kr. 20.000. Geymið kynningarbréfið sem sent var til ykkar í pósti vel, því það gildir sem happdrættismiði. Happdrættisnúmerið er lykilorðið sem er að finna neðst í bréfinu. Vinningsnúmer verða birt 29. febrúar á heimsíðu Félagsvísindastofnunar fel.hi.is. Vinninga skal vitja innan 6 mánaða.
Heppnir vinningshafar hafa verið valdir, sjá nánar.