Namskeið og kennsla

Starfsfólk Félagsvísindastofnunar hefur um árabil séð um kennslu í aðferðafræði við hinar ýmsu deildir Háskóla Íslands. Kennslan hefur spannað vítt svið beggja aðferðafræðihefða – megindlegra og eigindlegra – allt frá grunnhugtökum til flókinna aðferðafræðilegra verkefna.

Í megindlegum námskeiðum eru nemendum kynnt ýmis hugtök tölfræðinnar, lýsistærðir og myndræn framsetning gagna. Þá eru kennd grundvallaratriði líkindafræðinnar, ályktunartölfræði og aðhvarfsgreining. Nemendur fá þjálfun í að reikna hinar ýmsu lýsistærðir í Excel ásamt því að útbúa gröf. Nemendur læra á helstu tölfræðiforrit eins og Jamovi, SPSS og R.

Í eigindlegum námskeiðum eru nemendum kynnt helstu hugtök og fræðilegar forsendur eigindlegrar aðferðafræði. Nemendur fá innsýn í ólíkar rannsóknarhefðir innan eigindlegra rannsókna s.s. tilviksathuganir, fyrirbærafræði og grundaða kenningu. Nemendur fá þjálfun í undirbúningi rannsókna, gerð rannsóknaráætlunar, gagnaöflun, greiningaraðferðum og framsetningu niðurstaðna.

Hægt er að panta ráðgjöf og kennslu hjá Félagsvísindastofnun og einnig sérsniðin námskeið.

Ef þú óskar eftir kennslu eða sérsniðnu námskeiði vinsamlegast hafðu samband í síma 525 4545 eða með tölvupósti á netfangið felagsvisindastofnun@hi.is.