
Undanfarin misseri hefur Ísland verið þátttakandi í verkefni sem er styrkt af Evrópusambandinu og kallast Infra4NextGen (stytting á Infrastructure for the Next Generation). Einn angi af því verkefni kallast CRONOS (Cross-National Online Survey), en þar hefur þátttakendum verið safnað í nethóp (internet panel) sem fær reglulega sendar kannanir. Þátttakendum í þennan nethóp hefur verið safnað samhliða gagnasöfnun í Evrópsku Samfélagskönnuninni (European Social Survey) og er þar um að ræða lagskipt slembiúrtak, sem gerir það að verkum að gögnin eru mjög lýsandi fyrir öll þátttökulönd.
Ísland hefur tekið þátt í öðrum (CRONOS2) og þriðja (CRONOS3) kafla verkefnisins. Í CRONOS2 var gögnum safnað á árunum 2022-2023 og var þá um sex kannanir að ræða. Nú stendur yfir CRONOS3 hlutinn, en fyrsta bylgja í því verkefni fór af stað í september 2024 og nú stendur bylgja sex yfir. Nú þegar er búið að birta gögn úr fyrstu fimm bylgjunum í CRONOS3 og því afskaplega mikið af gögnum í boði til að greina. Í þessum könnunum eru spurningarnar á mjög breiðu sviði, en þar má nefna umhverfismál, stafræna þróun í vinnu og einkalífi, ólík lífsgildi, heilsu, menntun, innflytjendamál, stefnu stjórnvalda og margt fleira.
Öll þessi gögn eru í opnum aðgangi og má nálgast á gagnagátt European Social Survey hér - https://ess.sikt.no/en/series/655615e6-8e4f-4e84-a9c9-27d24b93f866 - en Félagsvísindastofnun hefur séð um alla gagnaöflun fyrir hönd Íslands. Við hvetjum rannsakendur, nemendur, stjórnvöld og alla aðra áhugasama til að kynna sér þessi gögn og nýta sem mest, því hér er um að ræða mjög nýleg gögn af miklum gæðum um íslenskt samfélag og önnur Evrópulönd.