Íslensku hefur nú verið bætt inn í ELSST (the European Language Social Science Thesaurus) sem er efnisorðaskrá CESSDA (the Consortium of European Social Science Data Archives). ELSST byggir á ISO25964-1 staðlinum um gagnvirkni (e. interoperability) tungumála og inniheldur hugtök sem notuð eru þvert á greinar innan félagsvísinda. Auk þess er snertiflötur við önnur svið vísinda, svo sem heilbrigðis- og lýðheilsuvísindi, og umhverfis- og auðlindafræði. ELSST telur nú sextán tungumál: dönsku, ensku, finnsku, frönsku, grísku, hollensku, íslensku, litháísku, norsku, rúmönsku, slóvensku, spænsku, sænsku, tékknesku, ungversku og þýsku. Með íslenskri útgáfu ELSST er hægt að flokka (e. index) gagnasöfn sem vistuð eru hjá GAGNÍS samkvæmt þeim rúmlega 3600 stöðluðu efnisorðum sem er að finna í skránni á 16 mismunandi tungumálum. Mun það leiða til aukins sýnileika íslenskra gagna erlendis og tryggja að (sjálfvirkar) gagnagreiningar sem byggja á gervigreind geti fundið og unnið með íslensk gögn.

GAGNÍS - Gagnaþjónusta félagsvísinda á Íslandi (gagnis.is) sem vistuð er á Félagsvísindastofnun HÍ hefur verið formlegur aðili að CESSDA síðan 17. júní 2020 og sá um að taka saman íslensku hugtökin. Nánar má lesa um nýjustu útgáfu ELSST hér https://www.cessda.eu/News/CESSDA-Newsitem-nid3261

Upplýsingar um íslenska orðasafnið veitir Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar og formaður stjórnar GAGNÍS á gudbjorg@hi.is eða gagnis@hi.is.