Forsetakosningar 1. júní 2024
Félagsvísindastofnun gerði þjóðmálakönnun dagana 22-30 maí 2024 þar sem fólk var spurt hvern það myndi kjósa sem forseta ef kosið væri í dag.
Tekið var 3.250 manna úrtak úr netpanel Félagsvísindastofnunar. Alls bárust 1.806 svör, af þeim tóku 1.734 afstöðu til spurningarinnar.
Niðurstöður könnunarinnar eru sem hér segir:
Katrín Jakobsdóttir skipar efsta sæti listans með 26,3%. Halla Tómasdóttir og Halla Hrund Logadóttir skipa annað og þriðja sæti með 18,5% og 18,4%. Þá er Baldur Þórhallsson í fjórða sæti með 16,1%. Fimmta sæti skipar Jón Gnarr með 9,9% og Arnar Þór Jónsson fengi samkvæmt könnuninni 7,1%. Aðrir frambjóðendur fengu 1,5% eða minna.
Mynd 1. Fylgi frambjóðenda
Fylgi frambjóðenda var skoðað nánar eftir aldri, búsetu, kyni og eftir því hvað fólk hyggst kjósa í næstu alþingiskosningum.
Katrín Jakobsdóttir höfðar jafn mikið til karla og kvenna. Hennar fylgi er mest meðal eldra fólks og minnst meðal yngsta aldurshópsins. Katrín höfðar einkum til fólks í Suðvestur- og Norðvesturkjördæmi. Katrín er vinsælust meðal þeirra sem hyggjast kjósa núverandi ríkisstjórnarflokka eða 68,1% þeirra sem hyggst kjósa Vinstri hreyfinguna grænt framboð, 45,8% Sjálfstæðismanna, 39,7% Framsóknarflokksmanna.
Þegar fylgi Katrínar var greint eftir því hvar á hinum pólitíska vinstri-hægri kvarða fólk staðsetur sig má sjá að fylgi hennar dreifist fremur jafnt til hægri og vinstri.
Halla Tómasdóttir höfðar mun meira til kvenna en karla en 23,1% kvenna hyggjast kjósa Höllu samanborið við 13,7% karla. Öfugt við Katrínu er fólk líklegra til að kjósa Höllu eftir því sem það er yngra. Halla sækir fylgi sitt helst til Suðvesturkjördæmis, en 23,8% íbúa kragans hyggjast kjósa Höllu. Tæpur þriðjungur þeirra sem ætla að kjósa Viðreisn í næstu kosningum ætla að kjósa Höllu Tómasdóttur. Næst vinsælust er Halla meðal sjálfstæðismanna þar sem rúmur fjórðungur þeirra hyggst gefa henni sitt atkvæði.
Halla Tómsdóttir höfðar meira til þeirra sem staðsetja sig hægra megin á hinum pólitíska kvarða.
Halla Hrund Logadóttir sækir fylgi sitt fremur til karla en kvenna þar sem 22,8% karla hyggjast kjósa hana en 14,3% kvenna. Halla Hrund höfðar heldur til eldri kjósenda en yngri þar sem rétt rúmur fjórðungur 60 ára og eldri hyggjast kjósa hana en 14% þeirra sem eru yngri en 30 ára. Íbúar Norðvestur- og Norðausturkjördæmis eru helstu fylgjendur Höllu Hrundar. Halla Hrund sækir fylgi sitt nokkuð jafnt á flesta flokka að Vinstri hreyfingunni grænu framboði og Pírötum undanskildum.
Halla Hrund Logadóttir höfðar nokkuð jafnt til hægri og vinstri á hinum pólitíska kvarða.
Baldur Þórhallsson sækir fylgi sitt frekar til kvenna en karla, en 19,2% kvenna hyggjast kjósa Baldur á meðan 12,8% karla segjast munu kjósa hann. Baldur höfðar jafnt til allra aldurshópa nema þeirra elstu. Fylgi Baldurs dreifist nokkuð jafnt á öll kjördæmi en þó á hann mestu fylgi að fagna í Norðvesturkjördæmi. Baldur sækir fylgi sitt einkum til kjósenda Pírata þar sem 37% þeirra hyggjast kjósa hann en einnig sækir hann hátt fylgi til kjósenda Flokks fólksins og Samfylkingarinnar.
Baldur höfðar einkum til þeirra sem staðsetja sig vinstra megin á hinum pólitíska kvarða.
Jón Gnarr höfðar ívið meira til karla en kvenna þar sem 11,1% karla en 8,7% konur hyggjast gefa honum sitt atkvæði. Jón sækir megnið af sínu fylgi til yngri aldurshópa. Jón er hvað vinsælastur í Reykjavík þar sem hann nýtur fylgis 12% kjósenda. Jón sækir fylgi sitt einkum til Pírata þar sem 28,1% hyggjast kjósa hann.
Jón Gnarr höfðar einkum til vinstri sinnaðs fólks.
Arnar Þór Jónsson sækir fylgi sitt aðallega til karla, en 9,3% karlar hyggjast kjósa hann en 5% kvenna. Arnar Þór er vinsælastur í elsta aldurshópnum. Fylgi Arnars Þórs er mest í Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Arnar er vinsælastur meðal kjósenda Miðflokksins en rétt tæpur þriðjungur þeirra hyggst kjósa Arnar Þór.
Arnar Þór sækir fylgi sitt einkum til hægri sinnaðra kjósenda.
Mynd 2. Fylgi frambjóðenda greint eftir kyni
Mynd 3. Fylgi frambjóðenda greint eftir aldri
Mynd 4. Fylgi frambjóðenda greint eftir hvaða stjórnmálaflokk fólk kysi ef gengi yrði til alþingiskosninga á morgun
Mynd 5. Fylgi frambjóðenda greint eftir kjördæmi
Mynd 6. Fylgi frambjóðenda greint eftir hvar fólk staðsetur sig á pólitískum vinstri-hægri kvarða
Gögn voru vigtuð eftir kyni, menntun, kjördæmi, gagnaöflunartíma og því hvað fólk kaus í síðustu alþingiskosningum. Þau sem sögðust alveg örugglega ætla að kjósa eða höfðu nú þegar kosið utan kjörfundar fengu einnig hærra vægi.