Rýnihópar

Rýnihópar eru eigindleg rannsóknaraðferð sem byggist á umræðum 6-8 einstaklinga í hóp um ákveðið málefni.

Með rýnihópaviðtölum er hægt að fá fram mikið af upplýsingum á skömmum tíma og annars konar innsýn í skoðanir fólks en fengist með einstaklingsviðtölum eða spurningakönnunum.

Rýnihópar henta sérstaklega vel í verkefnum þar sem þekking á viðfangsefninu er lítil eða ef rannsókn beinist að huglægum atriðum eins og ímynd eða mati á þjónustu. Upplýsingar úr rýnihópum eru oft notaðar til þess að móta spurningalista sem er síðan lagður fyrir úrtak. Þá fylgja rýnihópar oft í kjölfar megindlegrar rannsóknar þar sem rýnt er nánar í tölfræðilega niðurstöðu. Auk þess eru þeir oft notaðir með öðrum eigindlegum rannsóknaraðferðum.

Markmið með rýnihópum er aldrei að alhæfa niðurstöður yfir á stærri hóp. Markmiðið er fyrst og fremst að fá innsýn og hugmyndir í tengslum við ákveðið viðfangsefni.

Spyrlar Félagsvísindastofnunar sjá um að boða þátttakendur í umræður sem alla jafna eru haldnar í húsnæði Háskóla Íslands. Þá er hringt í einstaklinga í úrtaki til dæmis úr Þjóðskrá og kannað hvort þeir uppfylli sett skilyrði fyrir hópinn. Í framhaldi af því er viðkomandi boðin þátttaka. Umræður í rýnihópum eru hljóðritaðar og þær síðan greindar með til þess gerðu forriti.

Yfirgripsmikil reynsla, vandvirkni og gott skipulag eru lykilatriði til þess að unnt sé að ná fram góðum niðurstöðum úr rýnihópum. Starfsfólk Félagsvísindastofnunar býr bæði yfir mikilli þekkingu og reynslu á þessu sviði.

Nánari upplýsingar um þessa aðferð má fá hjá verkefnisstjórum Félagsvísindastofnunar í síma 525 4545 eða með tölvupósti á netfangið felagsvisindastofnun@hi.is.