Vilt þú taka þátt í Þjóðarspegli 2010?
Hér með er kallað eftir ágripum að erindum fyrir Þjóðarspegil: Ráðstefnu í félagsvísindum XI sem haldin verður föstudaginn 29. október 2010 við Háskóla Íslands. Ráðstefnunni er ætlað að kynna og miðla því sem efst er á baugi í rannsóknum í félagsvísindum á Íslandi ár hvert.
Áhugasömum fræðimönnum og sérfræðingum á sviði félagsvísinda er boðið að senda inn 200 orða ágrip fyrir 15. júní næstkomandi. Ágrip þarf að innihalda stutta lýsingu á markmiði rannsóknar, aðferðum og helstu niðurstöðum eða lærdómi. Sendist til Sóleyjar Lúðvíksdóttur, þjónustufulltrúa á Félagsvísindastofnun HÍ á netfangið soleyl@hi.is. Mjög gjarnan er tekið á móti tillögum að málstofum með fjórum erindum.
Fyrirhugaðar eru nokkrar breytingar á ráðstefnunni. Tilraun verður gerð með að bjóða höfundum ritrýni á greinar sínar. Þeir höfundar sem þess æskja eru beðnir um að taka það fram í ágripi sínu. Skilafrestur á full-ritrýndum greinum verður skemmri en á þeim sem fá ritstýringu á þann hátt sem verið hefur á birtingu erinda frá Þjóðarspegli.
Fyrirhugað er að ráðstefnuritin verði tvö, annað með ritrýndum greinum og hitt með ritstýrðum greinum og að þau verði nú gefin út rafrænt og í opnum aðgangi.
ATHUGIÐ EFTIRFARANDI:
• Ágrip skal merkja með nafni, titli/stöðu, heimilisfangi og netfangi aðalhöfundar. Ef um fleiri höfunda er að ræða skulu nöfn þeirra einnig standa á ágripinu.
• Ágripum skal skilað sem viðhengi í tölvupósti, merkt upphafsstöfum fræðasviðs og nafni höfundar. Dæmi:
o HAG_JonJonsson (fyrir hagfræði)
o VID_JonJonsson (fyrir viðskiptafræði)
o FELMAN_JonJonsson (fyrir fræðasvið Félags- og mannvísindadeildar)
o STJ_JonJonsson (fyrir stjórnmálafræði)
o FELRAD_JonJonsson (fyrir félagsráðgjöf)
• Hver og einn getur aðeins verið höfundur að tveimur greinum, aðalhöfundur að einni og annar höfundur að annarri. Hver þátttakandi getur aðeins kynnt eitt erindi á ráðstefnudaginn.
• ÁGRIPUM SEM BERAST EFTIR 15. JÚNÍ ER SJÁLFKRAFA HAFNAÐ.
Þegar nær dregur ráðstefnunni verður kallað eftir tillögum að veggspjöldum/posterum. Að gefnu tilefni er leiðbeinendum framhaldsnema bent á að þar er góð leið til að kynna framúrskarandi lokaverkefni á meistara- eða doktorsstigi.
Allir höfundar fá staðfestingu á móttöku ágrips. Staðfesting ritstjóra um samþykkt eða höfnun ágrips verður send til höfunda 25. júní.
Nánari upplýsingar veitir Gunnar Þór Jóhannesson (gtj@hi.is), Félagsvísindastofnun HÍ.