Háskóli Íslands

Íslenska kosningarannsóknin

Hér er hægt að nálgast upplýsingar og gögn úr Íslensku kosningarannsókninni. Í fellilistanum hér til vinstri er hægt að smella á hvert kosningaár og hala niður gögnum rannsóknarinnar í SPSS, ásamt spurningalista, kóðunarbók og upplýsingum um framkvæmd.

Einnig er hægt að skoða og greina niðurstöður úr Íslensku kosningarannsókninni í Nesstar WebView sem er gagnvirkt vefforrit í umsjón Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Í Nesstar WebView er auðvelt að skoða lýsandi tölfræði úr Íslensku kosningarannsókninni á netinu.

Smellið hér til að fara inn á Nesstar WebView

Um Íslensku kosningarannsóknina

Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði og fyrrverandi forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, hefur staðið fyrir Íslensku kosningarannsókninni frá upphafi. Hún var fyrst framkvæmd í kjölfar kosninga til Alþingis árið 1983 og hefur rannsóknin verið endurtekin eftir hverjar Alþingiskosningar síðan þá.

Íslenska kosningarannsóknin er viðamikil rannsókn þar sem lagðar eru fyrir spurningar um kosninga- og stjórnmálahegðun íslenskra kjósenda. Meðal rannsóknarefna eru til dæmis kosningahegðun, afstaða kjósenda til stjórnmálaflokka, afstaða til lýðræðis, hvað kjósendur telja vera mikilvægustu verkefnin á  vettvangi stjórnmála, þátttöku þeirra í prófkjörum og margvísleg önnur málefni á vettvangi stjórnmála.

Íslenska kosningarannsóknin er hluti af Nordic Electoral Democracy (NED) sem er norrænt samstarf um lýðræði og kosningar; Comparative Studies of Electoral Systems (CSES) og True European Voter (TEV) sem eru hvoru tveggja alþjóðalegt samstarf um kosningarannsóknir.

 

Samræming gagnasafna á milli ára

Gögnin úr Íslensku kosningarannsókninni hafa verið samræmd að langmestu leyti á milli ára. Heiti og merkimiðar á breytum fyrir spurningar sem hafa verið endurteknar eru í flestum tilvikum eins. Notendum gagnanna er bent á að aðgæta sjálfir hvort að breytur séu sambærilegar í orðalagi og svarmöguleikum ef svör eru borin saman á milli ára – þær upplýsingar eru að finna í kóðunarbókum hvers árs. Á þetta til dæmis við um spurningar eins og hvaða flokk svarendur kusu; sem dæmi er Alþýðuflokkurinn með tölugildið 1 árið 1991 en árið 2007 er það Samfylkingin sem er með tölugildið 1.

Í þessu skjali má finna upplýsingar yfir breytingar og lagfæringar sem gerðar hafa verið á skráningu gagnasafnsins milli ára, bæði á íslensku og á ensku.

 

Vinsamlegast getið heimilda

Allir þeir aðilar sem nota gögn úr Íslensku kosningarannsókninni, hvort sem það er fyrir erindi, kennslu eða birtar greinar, eru beðnir um að geta heimilda. Jafnframt ef þau eru notuð í greinum sem eru birtar, vinsamlegast sendið upplýsingar um greinina eftir að hún hefur verið birt til Evu Heiðu Önnudóttur (eho@hi.is). Fyrir liggur að birta ritaskrá með yfirliti yfir birtingar þar sem gögn úr Íslensku kosningarannsókninni eru notuð.

Fyrirspurnir eða athugasemdir um Íslensku kosningarannsóknina má senda í tölvupósti til Evu Heiðu Önnudóttur (eho@hi.is).

Skráning á póstlista Íslensku kosningarannsóknarinnar

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is