Háskóli Íslands

Aðferðir

Það skiptir miklu máli þegar farið er af stað með rannsókn að ígrunda vel hvaða rannsóknaraðferð verður fyrir valinu. Það fer eftir markmiði rannsóknar hvaða aðferð hentar best hverju sinni.

Rannsóknaraðferðir félagsvísinda byggja á tveimur mismunandi rannsóknarhefðum. Þessar rannsóknarhefðir eru annars vegar megindlegar rannsóknaraðferðir (Quantitative research) og hins vegar eigindlegar rannsóknaraðferðir (Qualitative research). Þessar tvær rannsóknarhefðir eru í grundvallaratriðum ólíkar en vega hvor aðra vel upp.

Megindlegar rannsóknaraðferðir eru notaðar til að safna tölulegum gögnum, t.d. með spurningalista sem lagður er fyrir úrtak þess hóps sem ætlunin er að alhæfa um. Þær henta vel til að fá yfirlit yfir tiltekið svið, um viðhorf eða hegðunarmynstur. Símakönnun, netkönnun, póstkönnun, vettvangskönnun og heimsóknarkönnun eru allar skilgreindar hér sem megindlegar rannsóknaraðferðir.

Eigindlegar rannsóknaraðferðir eru notaðar ef markmiðið er að grafast fyrir um hvaða merkingu eða skilning fólk leggur í ákveðna hluti. Slíkar rannsóknir byggja á viðtölum við einstaklinga og/eða hópa um ákveðið málefni. Bæði einstaklingsviðtöl og rýnihópar falla undir eigindlegar rannsóknaraðferðir. Aldrei er hægt að alhæfa útfrá niðurstöðum sem fengnar eru með þessum hætti yfir á stærri hóp heldur veita eigindlegar rannsóknir dýpri innsýn í viðfangsefnið.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is